Wednesday, March 11, 2009

Íslensk matvælaframleiðsla beint til neytenda.

Að undanförnu höfum við undirrituð unnið hörðum höndum að skipulagninguþeirrar vinnu sem nauðsynleg er til
að geta gert draum okkar að veruleika.

Hugmyndin er sú að setja á laggirnar bænda- og búvörumarkað á höfuðborgarsvæðinu þar sem bændur og aðrir framleiðendur geti komið með sínar vörur og selt, beint til okkar neytenda.

Hér á landi eru fjölmargir bændur að gera ótrúlega hluti, sem einhvern veginn virðast aldrei komast úr héraði.

Það er það sem við viljum breyta.

Við viljum að þeir sem að framleiða búvörur geti fengið meira fyrir sinn snúð en nú er raunin, með því hugsanlega að fullvinna afurðirnar í stað þess að senda allt til afurðarstöðva.

Hér er aldrei hægt að rekja afurðir heim á býli – hvers vegna ættum við ekki að geta keypt okkur lambalæri eftir landshluta, eða öðrum þeim skilyrðum sem skipt geta máli?


Lömb sem búa úti í Flatey bragðast ekki eins og þau sem alast upp í Útkinn og sumt kjöt er betra en annað, það er bara rökrétt.

Hér á landi eru unnar margvíslegar afurðir.

Mjólkurafurðir, sultur, hunang og ótalmargt annað, sem fæst okkar fá nokkurn tímann að vita um. Nema kannski fyrir algjöra tilviljun, og þá er oftar en ekki ómögulegt að nálgast vöruna.

Þessu ætlum við að breyta.

Við stefnum á að geta opnað markaðinn í haust.

Þessa dagana erum við að vinna að gagnagrunni, sem halda á utanum alla þá matvælaframleiðslu sem í landinu er. Einhverjar upplýsingar höfum við, en ekki nóg til að hefja starfsemi.

Þessu bloggi er ætlað að halda utanum allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru fyrir heimaframleiðslu, sem og að hvetja þá bændur sem hafa áhuga á að taka þátt til að hafa samband við okkur.

Eins væri gaman að heyra frá fólki sem hefur prófað eitthvað af þessari sérstöku framleiðslu sem verið er að segja okkur borgarbörnunum frá en við vitum ekki hvar við getum nálgast.


Jón Gunnarsson (jon.gunnarsson(at)gmail.com)
Sigurveig Káradóttir (
sigurveigk(at)simnet.is)

1 comment:

  1. Sæl bæði. Við hjá Náttúran.is höfum nú í nokkur ár verið að byggja upp gagnagrunn um einmitt þetta þ.e. hver er að gera hvað, hvar, hvernig, með áherslu á nýsköpun, hreinar náttúruafurðir, vottaðar, afurðir verkefna og þátttakendur. Á Náttúrumarkaðinum á vefnum er nákvæm skráning á vörunum, svo ítarleg að við getum nýtt ýmsar aðferðir til að sigta upplýsingar og tengja öðrum leitarorðum um uppruna, innihald, vottanir o.s.fr. Það væri gott að við hittumst og bærum saman bækur eða hvað finnst ykkur? Guðrún Tryggvadottir gunna@nature.is

    ReplyDelete